Aðalfundur 2017

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSu verður haldinn fimmtudaginn 30. mars nk. kl. 20:00 í Iðu.

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf skv. lögum félagsins.

Allir félagar og velunnarar félagsins eru hvattir til að mæta á fundinn, kynna sér starfsemina og taka þátt í fundarstörfum.

 

Leikmenn framtíðarinnar á Nettómóti 2017

Helgina 3.-5. mars sl. fór fram hið glæsilega Nettómót í Reykjanesbæ. Lið FSu hefur sjaldan eða aldrei mætt með jafn fjölmennan hóp ungmenna á eitt mót.Netto17.6 Alls fóru 62 börn frá Selfossi á mótið en einnig fengu að fljóta með 5 stelpur frá Hveragerði. Tólf lið voru skráð til leiks, 9 hjá strákunum en 3 hjá stelpunum. Alls var 51 leikur spilaður á þessum tveimur dögum.

 

Margt annað var þó á dagskrá um helgina og krakkarnir skelltu sér meðal annars í bíó, sund og svo var mikið fjör að fara í Reykjaneshöllina þar sem voru hoppukastalar og mikið pláss fyrir frjálsan leik.

Á laugardagskvöldinu var svo kvöldvaka þar sem mörg barnanna Netto17.1enduðu á að syngja sig hás. Það var þó alltaf næg orka til þess að spila leikina þar sem FSu sýndi á köflum frábæra takta.

 

Hvert sem litið var mátti sjá iðkendur FSu vera sér og félaginu til mikils sóma. Inni á vellinum sýndu þau mikla íþróttamennsku og utan vallar var gaman að sjá hvað gleðin og vináttan var sterk í hópnum.

 

Stuðningur foreldra í svona starfi er ómetanlegur en fjölmargir foreldrar mættu til þess að styðja sín börn og til þess að aðstoða við framkvæmd mótsins. Með Netto17.2svona sterkt bakland eiga börnin hjá okkur eftir að þroskast í góða og sterka einstaklinga.

 

Það er óhætt að segja að framtíðin hjá FSu sé björt og við hjá félaginu getum ekki verið heppnari með iðkendur. Gaman verður að fylgjast með þessum krökkum og öllum okkar iðkendum í framtíðinni.

 

Það eru þjálfararnir okkar, þau Karl Ágúst Hannibalsson, Harpa Reynisdóttir, Stefán Magni Árnason og Jose Gonzalez Dantas sem hafa veg og vanda af þátttöku krakkanna okkar á þessu móti og öðrum viðburðum. Það krefst mikils undirbúnings og skipulagningar að fara með svo stóran hóp á mót, að ekki sé talað um þegar keppt er tvo daga og þátttakendur gista eina nótt, en þá er varla mikið sofið!!

Meðfylgjandi eru nokkrar skemmtilegar myndir frá mótinu. ÁFRAM FSU!!!

 

Netto17.3 

 

Netto17.4

 

Netto17.5

 

Netto17.7

 

Netto17.8

 

Netto17.9

 

Netto17.10

 

Netto17.11

 

 

Endað á jákvæðan og uppbyggilegan hátt

Síðasti leikurinn okkar á tímabilinu fór fram í gærkvöldi, útileikur gegn Hamri, svo búast mátti við spennandi leik þessara nágrannaliða sem eldað hafa grátt silfur mörg undanfarin ár og sumir leikirnir með alveg nístandi spenningi eins og grannaslagir eiga að vera.

En ekki fór fyrir þannig stemmningu í gær. Leikurinn skipti kannski ekki nógu miklu máli, þannig lagað séð, því Hamar var öruggur í úrslitakeppnina en FSu sigldi lygnan sjó í 7. sætinu og gat ekki klifrað hærra í töflunni. Nokkra sterka leikmenn vantaði hjá Hamri vegna meiðsla, m.a. þeirra besta mann, Chris Woods, og þeir Snorri Þorvalds. og Hilmar Péturs. hvíldu líka. Hjá FSu var Hlynur Hreinsson fjarri góðu gamni og þrír aðrir leikmenn sátu á varamannabekknum í borgaralegum klæðum vegna meiðsla, þeir Hörður Jóh., Hilmir Ægir Ómars. og Sveinn Hafsteinn.

En hvað sem þessu leið var FSu liðið mun betra, tók strax örugga forystu, 0-10 eftir 3 mínútur og eftir fyrsta leikhluta var munurinn 19 stig, 15-34. Í öðrum leikhluta var meira jafnræði, FSu vann þann hluta þó með 3 stigum, 18-21, og fór í te með bæði tögl og hagldir, 33-55.

En ekki lögðust Hvergerðingar á bakið og dilluðu rófunni í seinni hálfleik, heldur bitu í skjaldarrendur. FSu liðið hélt ekki einbeitingunni, tapaði mörgum boltum og „skaut framhjá“ í ágætum færum þannig að Hamar minnkaði muninn, óþarflega mikið að mati skrifara sem sat í stúkunni, og komst niður í einfalda tölu þegar verst lét. En það var bara augnablik og munurinn fór aftur upp í 12 stig, 57-69, við lok 3. leikhluta. Þegar 4 mín. voru eftir munaði 13 stigum, 71-84, en lokamínúturnar voru gestanna og úrslitin 71-92 sem fyrr segir.

Elli Stefáns. var stigahæstur heimamanna með 21 stig og góður í gegnumbrotum en með slaka nýtingu af þriggjastigafæri. Örn Sigurðar skilaði hæstu framlagi, 19 punktum, en hann skoraði 19 stig, nýtti 62% skotanna og tók 5 fráköst. Björn Ásgeir Ásgeirsson, kornungur og efnilegur nemandi í FSu-Akademíunni, setti 12 stig í andlitið á kennurum sínum þar, 4 þristar úr 8 tilraunum, takk fyrir túkall! Smári Hrafnsson skoraði 8 stig, Oddur Ólafs. 7 (9 frk. og 4 sts.), Kristinn „Diddi“ Ólafsson 3 og Guðjón Ágúst Guðjónsson 1 stig.

Það er orðin hálfgerð tugga að segja að Terrance Motley hafi verið atkvæðamestur hjá FSu. En þó hann hafi skorað 27 stig, tekið 10 fráköst, gefið 9 stoðsendingar, stolið 4 boltum og skilað 31 framlagsstigi má færa rök fyrir því að Ari Gylfason hafi jafnvel látið meira að sér kveða. Ari skoraði 26 stig, tók 11 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, stal 6 boltum og fékk fyrir það 33 í framlag. Ari setti niður 6 þrista í leiknum og var að heyra úr stúkunni að heimamenn séu orðnir hálfleiðir á honum.

Arnþór Tryggvason átti góðan dag, 12 stig, 6 fráköst og 1 varið skot er enginn smá happadráttur fyrir liðið inn í teiginn. Helgi Jónsson var annar Akademíustrákur sem lét verulega að sér kveða. Helgi brilleraði alveg með 11 stig, 80% skotnýtingu (3/4 í þristum), 8 fráköst og 6 stoðsendingar, alls 21 framlagsstig, sem er ekki ónýtt hjá 17 ára gutta!! Svavar Ingi skoraði 6 stig (50% nýting), Gísli Gautason 4 (2/2) og þeir Jón Jökull Þráinsson og heimamaðurinn Páll Ingason, þriðji Akademíunemandinn sem gerði sig gildandi, skoruðu 3 stig hvor. Tóti Friðriks náði ekki að setj'ann í gær en lék góða vörn og tók 2 fráköst.

Srákarnir okkar luku keppni á mjög jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Eins og Eloy sagði í viðtali við Gest frá Hæli eftir leik hefur þetta tímabil að mörgu leyti verið erfitt vegna ástands og aðstæðna í leikmannahópnum, mikil umskipti frá því í fyrra, ótrúleg meiðsli og vandræði fyrir vikið að halda úti almennilegum æfingum. Úr þessu öllu hafa þjálfararnir greitt snilldarlega, liðið, og leikmenn einstaklingslega, hefur verið í stöðugri framför í allan vetur, þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að æfa 5 á 5 nema kannski einu sinni, tvisvar í viku sum tímaskeiðin. Vel gert, Eloy og Jose!

Við hlökkum til að sjá hvert þeir geta farið með þetta lið næsta vetur.

ÁFRAM FSU!!!

 

FSu er „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“

Í hálfleik á síðasta heimaleik FSu í 1. deild karla sl. fimmtudagskvöld afhenti Sigríður Jónsdóttir, ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ og formaður fræðslu- og þróunarsviðs sambandsins, félaginu viðurkenningu sem „Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“.

Viðurkenning þessi byggir á „Gæðahandbók“ sem skila þarf inn og uppfylla ákveðin skilyrði. Gæðahandbókin er lýsing á stjórnun og starfsemi félagsins. Þar eru sett fram ítarleg markmið fyrir starf félagsins og leiðir að þeim; aldursgreind markmið og áherslur í körfubolta, en einnig félagsleg markmið, markmið fyrir fjármál og rekstur, markmið í umhverfismálum ofl. Í Gæðahandbókinni er einnig viðbragðsáætlun og forvarnarstefna gegn einelti, mismunun og hvers kyns ofbeldi.

Stjórn félagsins hefur undanfarna mánuði unnið að því að endurskoða, auka  og bæta gæðahandbókina en félagið hefur einu sinni áður hlotið þessa viðurkenningu, sem veitt er til fjögurra ára í senn.

Það var sönn ánægja og heiður að taka við viðurkenningunni úr hendi Sigríðar við þetta tækifæri, að viðstöddum góðum hópi stuðningsmanna og foreldra yngstu iðkendanna, sem tóku virkan þátt í viðburðinum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar var einnig viðstaddur og óskaði félaginu til hamingju, en sveitarfélagið styrkir Fyrirmyndarfélög og -deildir í Árborg rausnarlega, um 700 þúsund krónur við afhendingu og síðan 500 þúsund krónur á ári meðan viðurkenningin er virk.

Á meðfylgjandi mynd sést Sigríður Jónsdóttir ásamt fulltrúm stjórnar FSu og álitlegum hópi af yngstu iðkendunum.

FSu.Fyrirm.fél. ÍSÍ 2017

 

 

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Friday the 24th. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©