SELFOSS-KARFA

Grein skrifuð Föstudagur, 06 apríl 2018
 

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags FSU var haldinn í Iðu í gærkvöldi, 5. apríl 2018. Þetta var tímamótafundur í sögu félgasins, því þar voru samþykktar afgerandi breytingar á lögum þess.

Meginbreytingin er nýtt nafn félagsins. Nú heitir það Körfuknattleiksfélag Selfoss, stytt SELFOSS-KARFA. Framvegis mun FSU-KARFA einskorðast við akademíuna sem félagið rekur við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Stúlkna- og drengjaflokkar nágrannafélaganna í Árnessýslu munu æfa í akademíunni og keppa sameiginlega sem FSU á opinberum mótum. Annað starf félagsins, yngriflokkar og meistaraflokkar, verður rekið undir nafni Selfoss, á sömu kennitölu og verið hefur. 

Önnur helstu tíðindi af fundinum eru þau að félagið skilaði flottum ársreikningi fyrir árið 2017. Rekstrartekjur voru tæpar 16,6 milljónir, lækkuðu um 4% frá fyrra ári. Rekstrargjöld voru rúmar 14,6 milljónir, lækkuðu um 7% milli ára. Hagnaður án fjármagnsliða var 1.988.000 en rekstarniðurstaðan 1.645.766 kr.

Félagið er enn að glíma við skuldahala, sem gengur þó jafnt og þétt á. Skuldahalinn kostaði félagið rúmlega 340.000 kr. í vaxtagjöld á síðasta ári en um áramót var skuldastaðan um 1.100.000 kr. lægri en árið áður. 

Í skýrslu stjórnar kom fram að þrátt fyrir vonbrigði með gengi meistaraflokks karla í 1. deild Íslandsmótsins er bjart yfir starfi félagsins. Góð aðsókn var að akademíunni, þó vissulega sé leitt hve kynjasamsetningin þar er einhliða. Barna- og unglingastarfið er einnig í blóma, félagið er Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og virkni í foreldrasamfélaginu fer vaxandi. Tvö fjölliðamót voru haldin með glæsibrag í Iðu og í mars opinn kynningarfundur meðal félagsmanna um áherslubreytingar í starfinu. Þá má nefna beinar útsendingar frá heimaleikjum í 1. deild karla sem jákvæð nýjung.

Viðræður eru hafnar við þjálfara fyrir næsta tímabil, en fyrir liggur að breytingar verða hvað varðar aðalþjálfara, bæði í meistaraflokki karla og í akademíunni. Fréttir af þeim málum verða sagðar um leið og samningar hafa verið undirritaðir, sem og fréttir af leikmannamálum, en þar er allt á fullum snúningi.

Á fundinum var öll stjórnin endurkjörin, en hún er þannig skipuð næsta starfsár:

Formaður: Gylfi Þorkelsson

Gjaldkeri: Eyþór Frímannssson

Ritari: Blaka Hreggviðsdóttir

Meðstjórnendur: Auður Rafnsdóttir, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Ólafur Valdín Halldórsson og Sigríður Elín Sveinsdóttir.

Framundan er nýr kafli. Félagið mun héðan í frá sigla skútu sinni undir nýju nafni úr nýrri heimahöfn. Niðurstaða liggur fyrir um það að við munum kveðja Iðu en nýr heimavöllur verður í Íþróttahúsi Vallaskóla, sem fær andlitslyftingu með vorinu og starfið hefst þar í sumar við bestu aðstæður.

Áfram SELFOSS!!!

FSu Karfa

Tryggvagötu 25
800 Selfoss
Kt 550606-0890

FSu karfa

Wednesday the 22nd. Template by Joomla Template 2.5. FSu Karfa - Selfoss
Copyright 2012

©